22. mars 2023

Ársfundur Íslandsstofu: Íslenskur útflutningur stendur traustum fótum

Ljósmynd

Ársfundur Íslandsstofu fór fram í Grósku miðvikudaginn 22. mars.  Þema fundarins var þáttur gilda í alþjóðaviðskiptum.

Utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ávarpaði fundinn. Í erindi sínu sagði hún meðal annars: „Það skiptir máli fyrir orðspor Íslands til framtíðar að meðvitund sé um það í íslensku atvinnulífi hvort og hvernig gildi hafa áhrif á alþjóðleg viðskipti. Þá sagði hún einnig: „Þróun alþjóðamála á síðustu misserum er þess eðlis að hún krefst alvarlegri og dýpri umræðu heldur en verið hefur ríkjandi á undanförnum árum og áratugum. Ég fagna því sérstaklega að Íslandsstofa ráðist í umræðu um svo alvarlegt mál og kalli til samtalsins málsmetandi fólk með víðtæka reynslu og þekkingu.“

Formaður stjórnar Íslandsstofu, Hildur Árnadóttir, flutti ávarp. Í framsögu sinni sagði hún að íslenskur útflutningur stæði á traustum fótum, sem væri skýrt merki um öflugan viðsnúning í þróun útflutningsverðmæta í kjölfar heimsfaraldurs. Það væri fagnaðarefni að aukningin væri ekki drifin áfram af einni atvinnugrein, heldur væru flestar stoðir útflutnings í vexti. Í takt við þema fundarins ræddi Hildur einnig mikilvægi góðra gilda og ímyndar Íslands á alþjóðavettvangi: „Sú góða ímynd og það mikla traust sem Ísland nýtur á erlendri grundu eru ekki sjálfgefin sannindi. Þetta eru áunnin verðmæti sem við höfum skapað á grunni þeirra gilda sem móta samfélag okkar og samskipti við aðrar þjóðir, hvort heldur er í stjórnmálum eða viðskiptum.“

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, skautaði yfir starfsemina á árinu 2022 og áherslur í útflutningi. Pétur greindi frá því að á seinasta ári námu útflutningstekjur yfir 1.700 milljörðum króna, sem er aukning um rúmlega 40% frá árinu 2021. Hann kynnti einnig  nokkrar tölur úr markaðsstarfinu á árinu. Meðal annars kom þar fram að 56 tengslaviðburðir fóru fram í 19 löndum á árinu og mældist 89% ánægja með þjónustu Íslandsstofu á þessum viðburðum, samkvæmt könnunum. Einnig kom fram að 2300 umfjallanir um Ísland birtust í erlendum miðlum á árinu og 40 milljón manns horfðu á kynningarmyndbönd Íslandsstofu erlendis. Hér er aðeins um brot úr tölum ársins að ræða, en ávallt er reynt að mæla árangur starfsins og markaðsverkefna eins og kostur er.  

Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur kom fram í innslagi. Sagði hann m.a. að í dag endurspegli gildi fyrirtækja gildi þjóðfélagsins. Stjórnendur fyrirtækja þyrftu ekki aðeins að hafa áhyggjur af hluthöfum, heldur skiptu hópar á borð við starfsfólk og viðskiptavini nú mun meira máli, og í seinni tíð þjóðfélagið sjálft líka: „Það hefur alltaf verið þannig að þau fyrirtæki sem eru á skjön við þau gildi sem þjóðfélagið setur sér, þau ná ekki miklum árangri, allavega ekki til langframa.“

Þá hafði Ólafur Jóhann á orði um viðskipti landa á milli: „Oft reynir fyrst á gildin þegar harnar á dalnum í samskiptum ríkja og þá þarf oft að vega og meta hvernig maður hagar sínum viðskiptum, sérstaklega þar sem viðskiptahættir eru öðruvísi en okkur er eiginlegt.“ Ólafur nefndi hér dæmi úr eigin reynslubanka. Sem aðstoðarforstjóri Time Warner tók hann þá ákvörðun á sínum tíma að stofna ekki fyrirtæki í Rússlandi, þrátt fyrir þrýsting innan fyrirtækisins. Þarna fylgdi hann, að sögn, eigin sannfæringu og komu gildin þar sannarlega við sögu: „Í mínum huga verður maður að viðhalda sínum gildum. Maður slær ekkert af þeim kröfum sem maður hefur heima hjá sér þegar maður fer eitthvert annað og ég sá ekki fram á að við gætum gert það í Rússlandi. Það er ekki nóg að eiga þessi gildi einhvers staðar skrifuð á blað, maður verður líka að fylgja þeim.“

Fundarstjóri fundarins, Fanney Birna Jónsdóttir, blaðamaður, stýrði pallborðsumræðum. Í pallborði tóku þátt reyndir aðilar úr ýmsum greinum atvinnulífsins.

·       Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF

·       Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood

·       Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

·       Lilja Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans

·       Sigríður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Primex.

 Fundarstjóri varpaði fram spurningunni sem var yfirskrift fundarins; „Skipta gildi máli í alþjóðaviðskiptum?“ Sköpuðust út frá því líflegar umræður. Flest voru þátttakendur sammála um að gildi skiptu vissulega máli í viðskiptum, en þó voru þau ekki alveg samstíga um hvernig eða hversu stóran þátt þau spiluðu. Þá voru sammála um að traust væri lykilatriði í viðskiptum og ímynd fyrirtækja og ríkja hefðu mikið að segja.

Hér má sjá upptöku af fundinum.


Sjá einnig nokkrar myndir frá fundinum hér að neðan.

Ársfundur Íslandssstofu 2022

Sjá allar fréttir