3. september 2024

Film in Iceland verkefnið verðlaunað í Los Angeles

Ljósmynd

Fulltrúar Film in Iceland verkefnisins, Einar Hansen Tómasson og Ísak Kári Kárason, taka hér við verðlaununum.

Film in Iceland verkefnið hlaut verðlaun í flokknum „Outstanding Film Commission of the Year“ á verðlaunahátíð Location Managers Guild International þann 24. ágúst sl. í Los Angeles. Verðlaunin eru virt innan kvikmyndaiðnaðarins og varpa ljósi á ómælda möguleika þess að taka upp kvikmyndir og þætti á Íslandi. Viðurkenningin endurspeglar einnig þá faglegu vinnu sem tökuliðið og aðrir sem komu að tökum þáttanna True Detective: Night Country unnu hér á landi árið 2023. Framúrskarandi gæði tökuliðsins á Íslandi hafa vakið athygli iðnaðarins í Hollywood, að sögn Einars Hansen Tómassonar, fagstjóra Film in Iceland.

Fulltrúar verkefnisins nýttu einnig ferðina til Los Angeles til að taka þátt í ráðstefnunni Association of Film Commissions International (AFCI) ásamt því að funda með framleiðendum og kvikmyndaverum á staðnum til að kynna endurgreiðslukerfi Íslands og aðra kosti þess að taka upp hérlendis. Þá var einnig staðið fyrir móttöku í samstarfi við hin Norðurlöndin sem tókst vel til.

Film in Iceland er rekið af Íslandsstofu og er markmið verkefnisins að kynna Ísland sem vænlegan tökustað, 35% endurgreiðslu framleiðslukostnaðar, innviði íslenska kvikmyndaumhverfisins, og aðstoða eftir fremsta megni erlendra framleiðendur sem hafa hug á að mynda á Íslandi.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðunum

Film in Iceland verkefnið verðlaunað í Los Angeles

Sjá allar fréttir