1. júní 2023

Fjárfestingatækifæri á sjálfbæra Íslandi kynnt í Sviss

Ljósmynd

Fundurinn var haldinn þann 23. maí á Widder hótelinu í Zürich og mættu um 40 gestir úr svissnesku viðskipta- og fjármálalífi.

Í tengslum við opinbera heimsókn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur til Sviss bauð Íslandsstofa, í samstarfi við utanríkisráðuneytið og sendiherra Íslands í Genf, til hádegisfundar um fjárfestingatækifæri á sjálfbæra Íslandi.

Hádegisfundurinn var haldinn þriðjudaginn 23. maí á Widder hótelinu í Zürich og um 40 gestir úr svissnesku viðskipta- og fjármálalífi skráðu sig. Ráðherra opnaði viðburðinn með ávarpi og lagði áherslu á mikilvægi virðingar fyrir alþjóðalögum og sameiginlega hagsmuni smærri ríkja á borð við Ísland og Sviss.

Íslandsstofa kynnti fjárfestingaumhverfi og tækifæri á Íslandi með áherslu á sjálfbær verkefni í þágu loftslagsmála, rannsóknir og þróun. Fulltrúi Nasdaq kynnti íslenska hlutabréfamarkaðinn. Þá var sagt frá heildarskipulagi umhverfis Keflavíkurflugvöll, sem nú er verið að kynna undir merkjum K64.is og tækifærum sem þar bjóðast, en Zürich skrifstofa hönnunar- og skipulagsfyrirtækisins KCAP leiðir alþjóðlegt teymi fyrirtækja sem vann hönnunarsamkeppni KADECO um svæðið. Bernard Jaggy, sendiherra Sviss gagnvart Íslandi og Noregi átti lokaorðin. Að loknum framsögum var boðið upp á hádegishlaðborð þar sem gestum gafst færi á að ræða við gestgjafa og framsögufólk.

rich text image
Fjárfestafundur með utanríkisráðherra Sviss

Sjá allar fréttir