24. nóvember 2023

Fjöldi íslenskra fyrirtækja stefnir á SLUSH 2023

Ljósmynd

Um sextíu fyrirtæki frá Íslandi taka þátt á sprota- og tækniviðburðinum SLUSH í Helsinki. Mynd: Julius Konttinen.

Framundan er hinn stórglæsilegi sprota- og tækniviðburður SLUSH sem fram fer í Helsinki dagana 30. nóvember og 1. desember. SLUSH er fyrir margt löngu orðinn einn mikilvægasti tengslavettvangur sprotafyrirtækja og fjárfesta en viðburðurinn hefur verið haldinn árlega í Finnlandi frá árinu 2008.

Að vanda mun fjöldi íslenskra fyrirtækja sækja viðburðinn en tíu ár eru liðin frá því að fyrsta íslenska sendinefndin tók þátt í SLUSH.

„Í ár eru tímamót í sögu íslenskra fyrirtækja á SLUSH en íslensk sendinefnd tók fyrst þátt í viðburðinum árið 2013. Frá þeim tíma hefur íslenskum sprotafyrirtækjum fjölgað og áhuginn vaxið. Það er því mikið ánægjuefni að fjöldi fyrirtækja taki þátt í íslensku sendinefndinni þetta árið, eða 60 fyrirtæki hið minnsta. Fyrir þeirra hönd verður mikill fjöldi stofnenda, sérfræðinga og fjárfesta staddir í Helsinki í næstu viku svo sýnileiki Íslands verður mikill og árangurinn án efa mjög góður,“ segir Jarþrúður Ásmundsdóttir, viðskiptastjóri nýsköpunar og tækni hjá Íslandsstofu.

Það eru Íslandsstofa, Iceland Innovation Week og Sendiráð Íslands í Helsinki sem halda utan um sendinefndina, auk þess að skipuleggja tvo sérstaka viðburði með það að markmiði að kynna íslensku fyrirtækin og tengja þau við fjárfesta, fjölmiðla og fleiri. Sérstakur gestur á báðum viðburðum verður forsetafrú Íslands, Eliza Reid.

Í íslensku sendinefndinni að þessu sinni eru meðal annars sprotafyrirtæki sem starfa á sviði loftslags-, mennta- og velferðarmála auk fjárfesta og fulltrúa stuðningsumhverfis og stjórnsýslu. Upplýsingar um fyrirtækin má finna á sérstakri síðu sendinefndarinnar en þar fer einnig fram skráning á hliðarviðburði Íslands í tengslum við SLUSH.

Íslandsstofa óskar sendinefndinni góðrar og árangursríkrar ferðar sem mun styðja íslensk sprotafyrirtæki til áframhaldandi sóknar og góðra verka.

Fjöldi íslenskra fyrirtækja stefnir á SLUSH 2023

Sjá allar fréttir