12. mars 2024

Ísland á tveimur stöðum á ITB Berlin í ár

Ljósmynd

Samtals tóku 36 íslensk fyrirtæki þátt í ferðasýningunni ITB í Berlín, annars vegar undir merkjum Visit Iceland og hins vegar fyrirtæki í ferðatækni sem sýndu í nafni Business Iceland.

Ferðasýningin ITB Berlín fór fram dagana 5. – 7. mars sl. Um er að ræða eina stærstu ferðasýningu í heimi og sóttu hana um 100 þúsund fagaðilar í ár.  

Í fyrsta sinn voru tveir básar á vegum Íslands á sýningunni – annars vegar undir merkjum Visit Iceland þar sem 27 fyrirtæki og þrjár markaðsstofur kynntu sig. Í fyrsta sinn tóku síðan einnig þátt á öðrum Íslands-bás sex íslensk ferðatæknifyrirtæki (e. travel tech) undir merkjum Business Iceland.

Auk fulltrúa á íslensku básunum tveimur tók frú Eliza Reid, forsetafrú, einnig þátt í viðburðinum. Mætti hún í móttöku fyrir blaðamenn sem blásið var til í sendiherrabústað Íslands í Berlín daginn áður en sýningin hófst. Þá heimsótti forsetafrúin íslensku fyrirtækin í báðum höllum auk þess sem hún tók þátt í panel-umræðum sem fram fóru á einu sviða sýningarinnar undir yfirskriftinni "Leading the Change: Corporate Culture in the Future Workforce".  

ITB er mikilvægur vettvangur fyrir fagaðila til að kynna sig og koma á, sem og hlúa að, viðskiptasamböndum. Í ár voru sýnendur 5.500 frá 170 löndum og sóttu tæplega 100 þúsund fagaðilar viðburðinn. Líkt og fyrri ár deildi Visit Iceland svæði með hinum Norðurlöndunum. Um nokkurra ára skeið hefur tækninýjungum í greininni einnig verið gert hátt undir höfði í sérstakri tæknihöll þar sem íslensku ferðatæknifyrirtækin kynntu sig í ár.  

Sjá lista yfir báðar sendinefndir á ITB í ár: 

Visit Iceland – delegation 

Business Iceland - Tech delegation 

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum.  

Ísland á tveimur stöðum á ITB Berlin í ár

Sjá allar fréttir