20. mars 2023

Íslensk verkefni á MIPIM 2023 í Cannes

Ljósmynd

Fulltrúar Þingvangs og The Greenhouse á fundi með fjármögnunaraðila í viðskiptahorni Íslands á MIPIM.

Fulltrúar fjögurra fjárfestingaverkefna, auk ráðgjafafyrirtækja, sóttu MIPIM 2023 í Cannes dagana 14. til 17. mars, undir merkjum Íslands. Um er að ræða stærstu árlegu ráðstefnu og sýningu á sviði fjárfestinga í fasteignaverkefnum. Íslandsstofa, ásamt KADECO og Croisette Iceland stóð fyrir vel sóttum morgunverðarfundi þar sem þrjú af verkefnunum kynntu sig.

Stærsta verkefnið var kynning KADECO og KCAP á K64.is, skipulagi fyrirhugaðrar uppbyggingar umhverfis Keflavíkurflugvöll. Þingvangur kynnti fjárfestingatækifæri í blandaðri byggð við Köllunarklettsveg og Þorpið Vistfélag tækifæri í sjálfbærri uppbyggingu á Gufunesi og Ártúnshöfða. The Greenhouse kynnti næstu skref í metnaðarfullum áformum um uppbyggingu fleiri sjálfbærra hótela og miðstöðvar fyrir ævintýri og vinnuaðstöðu. Iceland Property Advisors og Croisette Iceland kynntu þjónustu sína og Reykjavíkurborg átti fulltrúa í pallborðsumræðum um sjálfbæra þróun.

rich text image

Anouk Kuitenbrouwer frá KCAP og Pálmi Freyr Randversson framkvæmdastjóri KADECO kynna K64 verkefnið á fjölsóttum morgunverðarfundi á MIPIM 2023.

Íslandsstofa leigði viðskiptahorn undir sínum merkjum þar sem þátttakendur gátu lagt fram efni, sýnt kynningarefni á skjá og átt fundi. Viðskiptahornið var vel nýtt og þátttakendur áttu fjölda funda með áhugasömum aðilum. Aldrei áður hafa svo stór verkefni skráð sig á MIPIM af hálfu Íslands.

Skráðir þátttakendur á MIPIM 2023 voru alls um 23 þúsund frá 90 löndum, þar af fulltrúar um 2.400 aðila á sviði fjárfestinga í fasteignaverkefnum. Um 2.400 fyrirtæki, lönd, borgir eða svæði voru með sýningarsvæði eða viðskiptahorn. Íslandsstofa hefur boðið aðilum, sem leitað hafa eftir aðstoð Íslandsstofu eða landshlutasamtakanna við að ná til erlendra fjárfesta, að taka þátt í viðskiptahorninu á MIPIM. Miðað við áhugann í ár er líklegt að gerð verði almenn könnun á áhuga á þátttöku fyrir MIPIM sem mun næst fara fram dagana 12. til 15. mars 2024.

rich text image

Arnar Guðmundsson fulltrúi Íslandsstofu í pallborði hjá Newcastle um framtíð erlendra fjárfestinga ásamt Jacobo Dettoni hjá Financial Times, Tim Newns, framkvæmdastjóra hjá Office for Investment í breska forsætisráðuneytinu, Courtney Fingar ráðgjafa, Alberto Acosta yfirmanns erlendra fjárfestinga hjá Winnipeg og Jennifer Hartley framkvæmdastjóra Invest Newcastle sem stýrði umræðum.

Sjá allar fréttir