6. september 2024
Íslenskri menningu og listum fagnað í Bandaríkjunum
Frá menningarhátíðinni Taste of Iceland sem fram fór í Washington fyrr á þessu ári.
Íslenska menningarhátíðin Taste of Iceland er nú í fullum gangi í New York borg. Þetta er þriðja hátíðin í Bandaríkjunum á árinu en sú síðasta þetta árið verður haldin í Seattle í október.
Hátíðin hófst formlega í gær, fimmtudag, og stendur til laugardagskvölds. Meðal þátttakenda í dagskránni eru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra menningar, viðskipta og ferðamála, Svanhildur Hólm Valsdóttir, nýr sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, og Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Þá tekur fjöldi íslensks hæfileikafólks þátt í hátíðinni, meðal annars rithöfundarnir Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir, skemmtikrafturinn Ari Eldjárn og tónlistarmaðurinn Klemens Hannigan, auk landsliðskokkanna Snædísar Xyza Mae Ocampo og Ólafar Ólafsdóttur.
Markmið Taste of Iceland er að kynna íslenska menningu, framleiðslu og listir af ýmsum toga. Sem fyrr nýtur Ísland mikils áhuga ytra en dagskrá Taste of Iceland hefur fengið mikla athygli fjölmiðla og áhrifavalda. Áhugi á viðburðum vikunnar er mikill og ljóst að færri munu komast að en vilja.