28. nóvember 2023

Ný tækifæri með Íslandssvæði á MIPIM 2024

Ljósmynd

Palais des Festivals í Cannes. Aðalhöllin og hluti útisvæðisins á MIPIM. Mynd: Construction21 International.

MIPIM er ein stærsta fjárfestingastefna heims þar sem saman koma fjárfestar, fasteignafélög, fulltrúar borga, svæða og fjölbreytt flóra þjónustuaðila við fasteignageirann. Íslandsstofa mun í fyrsta sinn bjóða upp á aðild að Íslandssvæði á MIPIM 2024 sem fram fer í Cannes í Frakklandi 12. til 15. mars. Þar verður aðstaða til að kynna tækifæri og þjónustu og eiga B2B fundi auk þess sem þátttakendur njóta aðstoðar ráðgjafa við tengslamyndun.

Í boði er þátttaka sem lykilsýnandi eða almenn aðild og er fjöldi miða í hvort tveggja takmarkaður. Lykilsýnendur geta boðið til kynningarfunda á sínum verkefnum og annarra viðburða. Almenn aðild felur í sér ráðgjöf og stuðning og aðgang að aðstöðu á svæðinu.

Bæði fasteignaþróunarverkefni og þjónustuaðilar hafa sótt MIPIM undanfarin ár sem aðilar að viðskiptahorni Íslandsstofu með góðum árangri svo nú er það skref stigið að tryggja Íslandssvæði sem gefur nýja möguleika og fleiri aðilum kost á þátttöku. Meðal aðila sem sækja MIPIM til að skapa viðskiptatengsl og ný tækifæri eru sveitarfélög, fjárfestar, fjármálastofnanir, fasteignafélög, ráðgjafar, arkítektar og hönnuðir, verkfræðistofur og byggingarfyrirtæki auk fyrirtækja sem þróa margvíslegar tæknilausnir fyrir fasteignir.  Mikil áhersla er á grænar lausnir og sjálfbærni.

Stefnt er að því að geta boðið almenna aðild að svæðinu á svipuðu verði og einfaldur aðgangsmiði að MIPIM kostar til að gefa sem flestum tækifæri til að sækja MIPIM og kynnast þeim tækifærum sem þar bjóðast til framtíðar. Fyrstir koma fyrstir fá.

Fyrir nánari upplýsingar hafið samband við Arnar Guðmundsson, fagstjóra fjárfestinga hjá Íslandsstofu, á netfangið arnar@invest.is

Ný tækifæri með Íslandssvæði á MIPIM 2024

Sjá allar fréttir