24. apríl 2023

Tveir erlendir þýðendur hljóta heiðursviðurkenningu ORÐSTÍR

Ljósmynd

Heiðursviðurkenningin ORÐSTÍR er veitt fyrir þýðingingu íslenskra bókmennta á erlendar tungur

Forseti Íslands afhenti heiðursviðurkenninguna Orðstír í fimmta sinn á Bessastöðum þann 21. apríl síðastliðinn. Þeir tveir þýðendur sem hlutu viðurkenninguna í ár voru Luciano Dutra og Jacek Godek. Orðstír, heiðursviðurkenning þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, eru afhent annað hvort ár á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Heiðursviðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.

Þýðingar þessara tveggja mikilvirku þýðenda hafa ratað til ótal lesenda á portúgölsku og pólsku, kynnt þarlenda lesendur fyrir íslenskum bókmenntum og byggt mikilvægar brýr á milli landa.

Brasilíski þýðandinn Luciano Dutra kom fyrst til Íslands árið 2002 að nema íslensku því hann vildi geta miðlað íslenskum miðaldabókmenntum í til samlanda sinna á portúgölsku. Hann lauk námi í íslensku og þýðingafræði og hefur síðan þýtt fjölmargar bækur á portúgölsku, meðal annars Rökkurbýsnir og Skugga-Baldur eftir Sjón og Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson. Hann hefur líka verið ötull við ljóðaþýðingar og birtir reglulega þýðingar á norrænum ljóðum.

Pólski þýðandinn Jacek Godek hefur verið öflugur talsmaður íslenskra bókmennta í Póllandi og skáldsögurnar sem hann hefur þýtt telja nokkra tugi. Hann bjó á Íslandi sem barn en lauk stúdentsprófi í Pólland. Af öllum þeim fjölda verka sem Jacek hefur þýtt mætti nefna ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og ljóðabókina Frelsi eftir Lindu Vilhjálmsdóttur en sú bók í pólskri þýðingu Jaceks hlaut verðlaunin European Poet of Freedom árið 2018. Nýlega komu út bækurnar Kláði eftir Fríðu Ísberg og Kvika eftir Þóru Hjörleifsdóttur í hans þýðingu.

Um ORÐSTÍR

Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. Í stjórn að þessu sinni sátu fyrir hönd þessara aðila þau Gauti Kristmannsson, Guðrún C. Emilsdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen, Sif Gunnarsdóttir og Örnólfur Thorsson.

Íslandsstofa - Útflutningsaðstoð, landkynning, fjárfestingar

Sjá allar fréttir